154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[15:43]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Að baki þessari framkvæmdaáætlun er mikil vinna sem unnin hefur verið í afar víðtæku samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sveitarfélög og mörg ráðuneyti. 11 vinnuhópum var stýrt af fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Það eru því kaldar kveðjur sem hagsmunasamtökin fá frá Flokki fólksins og leitt að sjá að þau skuli ekki geta séð fyrir sér að styðja þetta góða mál. Framkvæmdaáætlunin er í reynd landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ég sé að samt sem áður fá þessar 60 aðgerðir sem fylgja henni víðtækan pólitískan stuðning og það er mikilvægt. Áætlunin mun hafa jákvæð áhrif á samfélag okkar þar sem enginn er skilinn eftir og þar sem öll fá tækifæri til að leggja sitt af mörkum og blómstra á eigin forsendum.